Kerrupúl í Laugardalnum

Ég byrjaði í Kerrupúlinu í Laugardalnum hjá Höllu Björgu Lárusdóttur og Melkorku Árný Kvaran þegar strákurinn minn var 2 ½ mánaða og tók þrjú námskeið hjá þeim. Kerrupúlið kom mér töluvert á óvart. Ég bjóst alveg eins við því að námskeiðið væri frekar í líkingu við mömmuklúbb heldur en mömmupúl, enda með vagnana með okkur allan tímann. En þar hafði ég sko rangt fyrir mér, sem betur fer. Tímarnir voru mjög fjölbreyttir og enginn dagur var eins. Við byrjuðum alltaf á stuttri kraftgöngu í kringum dalinn, en við tók kerrupúl. Námskeið sem stendur undir nafni! 🙂

Einhvers konar stöðvaþjálfun var í hverjum tíma og notuðum við alltaf eigin líkamsþyngd. Gerðum t.d. armbeygjur, froska, hnúapressur, framstig, dífur, pallastig, kúlurass, magaæfingar o.fl. o.fl. Svo voru teknir sprettir með og án vagna, valhoppað, hlaupið um dalinn og farið í skemmtilega í leiki, s.s. stöðvaratleik og stórfiskaleik. Ótrúleg fjölbreytni fyrir nýbökuðu mömmurnar. Það má segja að þetta hafi verið svona mömmuvænt bootcamp, en æfingarnar voru sniðnar að mömmum sem voru að ná sér í skrokknum eftir fæðingu og koma sér í form aftur. Tekið var tillit til þess að þarna voru konur í alla vega formi, enda mislangt frá fæðingu barnsins og misjafnt hvort þær höfðu glímt við einhvers konar fylgikvilla á meðgöngu eða voru t.d. enn að jafna sig í grindinni.

Það voru alltaf tveir þjálfarar á hverri æfingu, önnur leiddi hópinn (Melkorka eða Halla) en hin rak lestina (kennarar þeim til aðstoðar) og var hópnum stundum skipt upp á æfingu. Þær sem treystu sér gátu t.d. hlaupið meira, gert fleiri endurtekningar eða erfiðari æfingar. Mjög magnað. Það var líka gott að hafa aðgang að góðum kennurum, en Melkorka er íþróttakennari, einkaþjálfari og matvælafræðingur og Halla hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Báðar eiga þær líka slatta af börnum og vita vel hvaða æfingar henta nýbökuðum mæðrum.

Veðrið var mjög breytilegt á tímabilinu, en það var snjór, hálka og hvassvirði þegar ég byrjaði hjá þeim í mars, en blíðskapar vorveður og sól í lok maí þegar ég hætti. Það var yndislegt að æfa í dalnum – þar er svo skjólríkt og fundum við lítið fyrir veðrinu þá daga sem var hvasst. Hvernig sem viðraði þá féllu æfingar aldrei niður og var alltaf jafn hressandi að drífa sig út. Mér leið betur í bæði líkama og sál og kom líka meiru í verk þá daga sem ég púlaði. Við vorum að meðaltali um 15 sem sóttum námskeiðið í byrjun mars, en vorum örugglega orðnar um 30 þegar ég hætti í lok maí. Margar þeirra höfðu sett það fyrir sig að byrja fyrr vegna kulda – en um að gera að láta veðrið ekki stjórna sér. Það er alltaf hægt að klæða sig og barnið bara betur og vera með mannbrodda. Mér fannst eiginlega erfiðara að finna klæðnað á bæði mig og strákinn þegar tók að hlýna í veðri. Hann varð líka órólegri í hitanum og vaknaði oftar á æfingum. En þá kom sér vel að hafa tvo þjálfara í hópnum, og tóku  þær það að sér að rugga börnunum fyrir okkur, þannig að mamman gæti púlað á meðan. Æðisleg þjónusta! 🙂

Ég er mikil rútínumanneskja og fannst gott að hafa kerrupúlið sem ákveðna grunndagskrá í hverri viku. Ég hlakkaði alltaf til þess að fara á æfingu og púla – og kynntist mörgum frábærum mömmum í leiðinni. Á hverju námskeiði var líka hittingur á kaffi Flóru í Laugardalnum, þar sem við fengum tækifæri til að spjalla og kynnast hvorri annarri og börnunum betur.

Kerrupúlið hentaði mér vel til að komast aftur í form. Ég hafði glímt við mikla samdráttar og fyrirvaraverki á meðgöngunni og var rúmliggjandi síðustu 6 vikurnar. Ég var því í arfaslöku formi þegar ég byrjaði að púla, en var fljót að ná upp ágætu þoli og styrk. Ég mæli því hiklaust með Kerrupúlinu fyrir alla í fæðingarorlofi (karlar líka velkomnir! ) og mun fara til þeirra aftur ef ég eignast annað barn.

Næst á dagskrá hjá mér er Útipúl hjá Melkorku í Laugardalnum (án vagnsins). Ég hlakka mikið til og verður spennandi að sjá hvernig námskeiðið hjá henni er uppbyggt 🙂

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s